Formaður Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa fagnar frumvarpi dómsmálaráðherra sem myndi heimila sölu á framleiðslustað.
Greinin birtist áður á vb.is
Mikil gróska hefur átt sér stað undanfarin ár í handverksbruggi og almenningur er farinn að sýna mismunandi bjórstílum mikinn áhuga að sögn Laufeyjar Sifjar Lárusdóttur, nýs formanns Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa. Var hún skipuð formaður samtakanna á aðalfundi sem fór fram nýverið en ásamt henni voru Jóhann Guðmundsson, Sigurður P. Snorrason, Haraldur Þorkelsson og Ólafur S.K. Þorvaldz kjörnir í stjórn. Laufey tekur við formennskunni af fyrrnefndum Sigurði.
Samtök íslenskra handverksbrugghúsa eru hagsmunasamtök smærri áfengisframleiðanda á Íslandi sem gerja og framleiða áfengi í eigin framleiðslutækjum. Samtökin voru stofnuð árið 2018 af 18 handverksbrugghúsum en í dag eru alls 25 brugghús, sem staðsett eru vítt og breitt um allt land, meðlimir í samtökunum. Að sögn Laufeyjar skapa handverksbrugghúsin 25 um 200 störf á landsvísu. Hún segir helsta markmið samtakanna að stuðla að bættu rekstrarumhverfi minni brugghúsa.
„Hin íslensku handverksbrugghús fara að jafnaði ótroðnar slóðir er kemur að hráefnum en hafa ávallt gæði framleiðslu sinnar að leiðarljósi. Handverksbrugghús eru í eðli sínu smá, með framleiðslu undir milljón lítrum á ári,” útskýrir Laufey. „Öll brugghúsin í samtökunum hafa sinn eigin stíl, stefnur og áherslur og það má með sanni segja að brugghúsaflóran innan samtakanna sé mjög fjölbreytt.”
Ánægjulegt að ráðherra láti sig málið varða
Laufey segir að allt frá stofnun hafi samtökin staðið vörð um hagsmuni handverksbrugghúsa með því að fylgja eftir nokkrum mikilvægum málum. Þar hafi mest áhersla verið lögð á að framleiðendur fái leyfi til þess að selja framleiðslu sína beint til almennings út úr verksmiðju sinni, líkt og tíðkist á öðrum Norðurlöndum þar sem ríkið hefur einkaleyfi á áfengissölu. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur einmitt lagt fram frumvarp þess efnis á Alþingi.
Laufey leggur áherslu á að ætlun samtakanna sé ekki að berjast fyrir því að einokun ríkisins á sölu áfengis verði rofin. Að sama skapi fagni samtökin því að dómsmálaráðherra sjái að handverksbrugghúsin eigi undir högg að sækja hvað þetta varðar og að hún beiti sér fyrir að bæta stöðu þeirra.
„Við erum ekki að tala fyrir því að áfengi verði selt í verslunum heldur viljum við fá frelsi til þess að gera fólki sem heimsækir okkur kleift að kaupa af okkur bjór á framleiðslustað.” Þetta sé m.a. mikilvægur hlekkur í upplifunartengdri ferðaþjónustu. „Ferðamenn geta þá heimsótt framleiðslustað, fræðst um bjórinn með samtali við framleiðendur og svo fest kaup á vörunni ef þeim líst vel á.” Þá geri þetta smáum brugghúsum sem ekki hafi enn haft tök á að koma vörum sínum í Vínbúðina kleift að koma vörum sínum til neytenda, auk þess sem fleiri störf myndu skapast með auknum möguleikum framleiðandanna til að selja vörur sínar.
Meðal annarra áherslumála samtakanna nefnir Laufey að samtökin beiti sér fyrir því að smærri áfengisframleiðendum verði veittur afsláttur af áfengisgjaldi í samræmi við venjur og heimildir Evrópusambandsins. Að síðustu vilji samtökin standa vörð um aðgengi og auka enn frekar framboð vara frá handverksbrugghúsum á börum og veitingastöðum landsins, sem og í verslunum ÁTVR.